Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 320 . mál.


564. Frumvarp til laga



um staðfesta samvist.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Tveir einstaklingar af sama kyni geta stofnað til staðfestrar samvistar.

2. gr.

    Ákvæði II. kafla hjúskaparlaga gilda um skilyrði til þess að samvist verði staðfest samkvæmt lögum þessum, sbr. þó 2. mgr.
    Staðfesting samvistar getur aðeins farið fram ef báðir einstaklingarnir eða annar þeirra er íslenskur ríkisborgari sem á lögheimili hér á landi.

3. gr.

    Áður en staðfesting fer fram skulu aðilar leggja fram vottorð þess efnis að könnun hafi átt sér stað á skilyrðum fyrir staðfestri samvist.
    Ákvæði III. kafla hjúskaparlaga gilda um framkvæmd á könnun skilyrða fyrir staðfestri samvist.
    Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um könnun á skilyrðum fyrir staðfestri samvist.

4. gr.

    Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæma staðfestingu á samvist.
    Ákvæði 21.–26. gr. hjúskaparlaga gilda um framkvæmd staðfestingar eftir því sem við á.

5. gr.

    Staðfesting samvistar hefur, með þeim undantekningum sem greinir í 6. gr., sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.

6. gr.

    Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón gilda ekki um staðfesta samvist.
    Reglur um heimildir til tæknifrjóvgunar með skilyrði um hjúskap gilda ekki um staðfesta samvist.
    Ákvæði laga með sérreglur um annan makann í hjúskap sem bundin eru við kynferði hans gilda ekki um staðfesta samvist.
    Ákvæði í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að gilda ekki um staðfesta samvist nema aðrir samningsaðilar fallist á það.

7. gr.

    Staðfestri samvist lýkur við andlát samvistarmaka, með ógildingu staðfestrar samvistar eða með lögskilnaði.

8. gr.

    Ákvæði hjúskaparlaga um ógildingu hjúskapar, hjónaskilnaði og fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita gilda um ógildingu og slit staðfestrar samvistar, sbr. þó 2. og 3. mgr. Önnur ákvæði laga sem varða lok hjúskapar og réttaráhrif þeirra gilda um lok staðfestrar samvistar.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 114. gr. hjúskaparlaga er ávallt heimilt að höfða mál skv. 113. gr. laganna vegna staðfestrar samvistar fyrir íslenskum dómstólum hafi staðfesting farið fram hér á landi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 123. gr. hjúskaparlaga, er íslenskum stjórnvöldum ávallt heimilt að leysa úr málum vegna staðfestrar samvistar sem stofnað er til hér á landi.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Það er byggt á tillögum meiri hluta stjórnskipaðrar nefndar um málefni samkynhneigðra sem birtar voru haustið 1994. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um með hvaða hætti tveir einstaklingar af sama kyni geti látið staðfesta samvist sína og um réttaráhrif slíkrar staðfestingar. Markmið frumvarpsins er að gefa samkynhneigðum einstaklingum í sambúð kost á því að fá samvist sína staðfesta með sömu réttaráhrifum í meginatriðum og um hjúskap væri að ræða.

I. Inngangur.
    Aðdragandann að samningu frumvarps þessa má rekja til ályktunar Alþingis frá 19. maí 1992 um skipun nefndar til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks. Þingsályktunin var í heild sinni svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.“
    Í samræmi við þessa þingsályktun skipaði Davíð Oddsson forsætisráðherra, 26. apríl 1993, nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Í nefndinni sátu Drífa Pálsdóttir frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Guðni Baldursson og Guðrún Gísladóttir frá Samtökunum 78, félagi lesbía og homma á Íslandi, Ingi Valur Jóhannsson frá félagsmálaráðuneyti, Margrét Harðardóttir frá menntamálaráðuneyti og Sigurður Júlíus Grétarsson, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar. Guðrún Gísladóttir lét af störfum í janúar 1994 og Lana Kolbrún Eddudóttir var skipuð í hennar stað. Nefndin lauk störfum haustið 1994 með útgáfu skýrslu um málefni samkynhneigðra þar sem fram koma tillögur hennar um úrbætur í málefnum samkynhneigðra hér á landi. Í skýrslunni er einnig að finna ítarlega umfjöllun um samfélagslega stöðu samkynhneigðra, hvernig fræðslu um samkynhneigð er háttað, um löggjöf til verndar minnihlutahópum og loks hver er lagaleg staða samkynhneigðra í sambúð á Íslandi. Í skýrslunni er einnig lýst löggjöf nokkurra landa um réttarstöðu samkynhneigðra.
    Tillögur nefndarinnar um úrbætur eru þríþættar. Í fyrsta lagi lúta þær að fræðslu um samkynhneigð og hvernig megi uppræta fordóma í þjóðfélaginu í garð samkynhneigðs fólks. Í öðru lagi fjalla þær um hvernig breyta megi refsilögum til þess að vernda samkynhneigða gegn aðkasti og misrétti. Í þriðja og síðasta lagi fjalla þær um úrbætur til þess að veita samkynhneigðum í sambúð kost á því að njóta réttarstöðu sem er sambærileg við réttarstöðu hjóna, en þó með nokkrum undantekningum.
    Efni frumvarpsins lýtur að þriðja þættinum um hvernig megi veita samkynhneigðum í sambúð sambærilega réttarstöðu og þegar hjón eru annars vegar, eins og nefnt var að framan. Frumvarpið er þannig uppbyggt að það vísar fyrst og fremst til ákvæða hjúskaparlaga og að þau skuli gilda með sambærilegum hætti um staðfesta samvist, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Að öðru leyti er ráðgert að öll önnur lagaákvæði þar sem vikið er að hjúskap, réttaráhrifum hans og stöðu maka gildi með sama hætti um staðfesta samvist, nema sérstakar undantekningar séu gerðar.
    Frumvarpið byggir á tillögum meiri hluta nefndarinnar um málefni samkynhneigðra um að sett verði lög um réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð sem byggi á sama grunni og lög þau sem hafa verið sett í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Verður nú í stuttu máli gerð grein fyrir megindráttum í löggjöf þessara Norðurlanda um efnið og réttarstöðu samkynhneigðra í sambúð hér á landi áður en tillögum meiri hluta nefndarinnar verður lýst nánar.

II. Löggjöf á Norðurlöndum um sambúð samkynheigðra.
    Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa verið sett lög um skráða sambúð (registreret partnerskab) tveggja einstaklinga af sama kyni, en löggjöf um þetta efni er nú í undirbúningi í Finnlandi. Danir urðu fyrstir til að lögfesta slíkar reglur um sambúð samkynhneigðra með lögum nr. 372/1989. Norðmenn fylgdu á eftir og lögfestu reglur um einstaklinga með sameiginlegt heimilishald, þar á meðal samkynhneigðra einstaklinga í lögum nr. 45/1991. Sérstakar reglur um skráða sambúð samkynhneigðra voru síðan settar í Noregi með lögum nr. 40/1993, en þeim svipar mjög til dönsku laganna bæði um uppsetningu og efni. Nýjustu lögin um skráða sambúð samkynhneigðra á Norðurlöndum eru í Svíþjóð þar sem lög nr. 1117/1994 tóku gildi 1. janúar 1995. Þau eru að efni til mjög sambærileg norsku og dönsku lögunum.
    Norrænu lögin eiga það öll sameiginlegt að þar er sett fram sú meginregla að um stofnun skráðrar sambúðar og hjónabands gildi sömu skilyrði og að réttarstaða einstaklinga í skráðri sambúð og við lok hennar skuli vera sú sama og réttarstaða einstaklinga í hjónabandi. Nokkrar undantekningar eru þó frá þessari meginreglu sem eru að meginstefnu sambærilegar í framangreindum lögum annars staðar á Norðurlöndunum og verður þeim nú lýst nánar.
    Í fyrsta lagi er það skilyrði fyrir skráðri sambúð að a.m.k. annar aðilinn hafi ríkisborgararétt í landinu og sé búsettur þar.
    Í öðru lagi geta samkynhneigðir ekki fengið sambúð sína skráða í kirkjulegri vígslu heldur er hún framkvæmd af borgaralegum vígslumönnum.
    Í þriðja lagi geta samkynhneigðir í skráðri sambúð ekki ættleitt saman barn. Í sænsku lögunum er að auki tekið fram að lög um tæknifrjóvgun og glasafrjóvgun eigi ekki við um aðila í skráðri sambúð.
    Í fjórða lagi er sú undantekning gerð í dönsku og sænsku lögunum að samkynhneigðir í skráðri sambúð geti ekki farið sameiginlega með forsjá barna.
    Í fimmta lagi er í dönsku lögunum að finna reglu um að ákvæði í alþjóðlegum samningum gildi ekki um skráða sambúð nema aðrir samningsaðilar fallist á það. Í sænsku lögunum er regla sem undanþiggur viss þjóðréttarleg atriði varðandi hjónaband, ættleiðingu og lögráð þegar skráð sambúð er annars vegar.
    Í sjötta lagi er sú undantekning gerð í dönsku og sænsku lögunum að lagaákvæði með sérreglum um annan maka, sem bundin eru við kynferði hans, gildi ekki um skráða sambúð.
    Í sjöunda lagi er sú undantekning gerð í dönsku lögunum að ekki er hægt að leita sátta fyrir presti, í tengslum við slit skráðrar sambúðar.
    Loks er í áttunda lagi að finna sambærilega reglu í öllum lögunum um að ávallt sé heimilt að höfða dómsmál sem varða lok skráðrar sambúðar fyrir þarlendum dómstólum hafi skráningin farið fram þar.

III. Yfirlit yfir gildandi lagalega stöðu samkynhneigðra í sambúð.
    Engin íslensk lagaákvæði gilda um lagalega stöðu tveggja samkynhneigðra í sambúð. Þessari aðstöðu hefur um margt verið líkt við réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð, enda er þar um að ræða sambúð tveggja einstaklinga sem ekki eru í hjúskap en með vissa fjárhagslega samstöðu. Engu að síður er fólki í óvígðri sambúð veitt margvíslegt hagræði í lögum, sem gerir stöðu þeirra á sumum sviðum sambærilega réttarstöðu fólks í hjúskap, þótt engin heildarlög gildi um óvígða sambúð. Hefur ekki verið talið fært að beita lagaákvæðum um óvígða sambúð með rýmkandi lögskýringu um samkynhneigða í sambúð. Þess má geta að aldrei hafa gengið dómar hér á landi um lagalega stöðu samkynhneigðra í sambúð.
    Eins og áður hefur verið nefnt er meginmarkmið frumvarpsins að veita samkynhneigðum í sambúð sambærilega réttarstöðu og gildir um hjúskap og að ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993 gildi þannig um þessa aðstöðu með nokkrum undantekningum. Í frumvarpinu er því ekki ráðgert að samkynhneigðir eigi valkost um að njóta sömu stöðu og karl og kona í óvígðri sambúð, þ.e. með aðeins hluta þeirrar réttarstöðu sem hjón njóta. Hér á eftir verður lýst í stórum dráttum núgildandi lagalegri stöðu samkynhneigðra í sambúð í samanburði við réttarstöðu hjóna og með hvaða hætti hún mun breytast verði samkynhneigðum gert kleift að staðfesta samvist sína með þeim hætti sem ráðgert er í frumvarpi þessu. Er í yfirliti þessu stuðst við ítarlega samantekt um efnið í skýrslu nefndar um málefni samkynhneigðra. Hafa ber í huga að hér er ekki um að ræða tæmandi upptalningu á sviðum þar sem breytingar verða á réttarstöðu samkynhneigðra í staðfestri samvist verði frumvarp þetta að lögum, heldur eru aðeins talin þau atriði sem væntanlega hafa mesta þýðingu í þessu sambandi. Þess ber einnig að geta í tengslum við eftirfarandi umfjöllun um ættleiðingar barna og tæknifrjóvganir, að frumvarpið ráðgerir ekki að núgildandi reglur um þessi atriði gildi um staðfesta samvist.

1. Eignarréttur og forræði eigna.
    Um eignarrétt og forræði eigna samkynhneigðra í sambúð gilda nú sömu sjónarmið og eiga við karl og konu í óvígðri sambúð en þessar reglur eru ekki lögbundnar sérstaklega. Þannig er meginreglan um tvo samkynhneigða einstaklinga í sambúð að þær eignir sem hvor þeirra um sig á og kaupir fyrir sína fjármuni eru hans eign. Í reynd gildir sama regla þegar hjúskapur er annars vegar, en þar kemur þó til að eignir einstaklings í hjúskap eru hjúskapareign hans og öðlast hvort hjóna um sig hjúskaparrétt yfir öllum hjúskapareignum hins sbr. 54. og 103. gr. hjúskaparlaga. Sá maki sem á eign að hjúskapareign hefur einn forræði hennar en þó er takmarkaður réttur hans til að ráðstafa vissum eignum sem skipta fjölskylduna miklu.
    Sama aðalregla á jafnt við um hjón og samkynhneigða í sambúð að einstaklingur ber einungis ábyrgð á eigin skuldbindingum en ekki á skuldum maka eða sambúðarmanns. Hin mikla hagsmunalega og fjárhagslega samstaða hjóna birtist helst við lok hjúskapar vegna skilnaðar eða andláts eða þegar til fjárslita kemur. Þá kemur til framkvæmda svokölluð helmingaskiptaregla um skipti á eignum, sem verður nánar vikið að síðar í þessari umfjöllun, á meðan eignaskipti samkynhneigðra í sambúð byggja á eignatilkalli hvors um sig.

2. Framfærsla og framfærsluskylda.
    Engin gagnkvæm framfærsluskylda hvílir á samkynhneigðum í sambúð eða eftir slit sambúðar og á það sama við um karl og konu í óvígðri sambúð. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. hjúskaparlaga hvílir hins vegar gagnkvæm framfærsluskylda á hjónum á meðan hjúskapurinn varir. Framfærsluskyldan helst á meðan skilnaður að borði og sæng varir, en fellur niður við lögskilnað nema sérstaklega standi á, sbr. 50. gr. laganna.

3. Börn.
    Forsjá og fóstur barna.
    Í barnalögum nr. 20/1992 er kveðið á um hverjir geta farið með forsjá barna. Um forsjá barna gilda sömu reglur án tillits til þess hvort um hjúskap eða óvígða sambúð karls og konu er að ræða og fara foreldrar þannig sameiginlega með forsjá barna sinna á meðan hjúskap stendur eða sambúð varir. Í 6. mgr. 29. gr. barnalaga kemur fram hverjir fari með forsjá en það eru kynforeldri, kjörforeldri, stjúpforeldri og fósturforeldri, svo og sambúðarforeldri, þ.e. karl eða kona sem er í sambúð við kynmóður barnsins eða kynföður. Hér er um að ræða tæmandi talningu á þeim sem geta farið með forsjá barns. Samkvæmt því er ekki mögulegt að tvær samkynhneigðar konur í sambúð geti farið sameiginlega með forsjár barns annarrar þeirra og á það sama við um tvo karla í sambúð.
    Samkvæmt 29. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna er barnaverndarnefndum heimilað að fela sérstökum fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns, og er í öðrum ákvæðum laganna þar sem rætt er um fósturráðstafanir, jafnan rætt um „fósturforeldra“. Í framkvæmd hafa barnaverndaryfirvöld litið svo á að fósturforeldrar skuli vera karl og kona í hjúskap eða sambúð og þannig hefur til dæmis einhleypum einstaklingum almennt ekki verið falin forsjá eða umsjá barns á þessum grundvelli. Ekki hefur reynt á skýringu þessa ákvæðis hjá barnaverndaryfirvöldum, um hvort tveir samkynhneigðir einstaklingar geti talist fósturforeldrar.
    Ættleiðingar.
    Í 1. mgr. 5. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 kemur skýrt fram að hjónum einum sé heimilt að ættleiða saman. Í 2. mgr. sama ákvæðis er kveðið á um að öðru hjóna megi með samþykki hins veita leyfi til að ættleiða barn eða kjörbarn þess fyrrnefnda. Ákvæði þetta útilokar að aðrir en hjón geti ættleitt barn saman, svo og að svokölluð stjúpættleiðing geti átt sér stað milli annarra en hjóna, og á það jafnt við um karl og konu í óvígðri sambúð og samkynhneigða í sambúð.
    Tæknifrjóvgun.
    Ekki hafa verið sett heildarlög um tæknifrjóvgun hér á landi en frumvarp þess efnis hefur verið lagt fram á yfirstandandi þingi. Um nokkurra ára skeið hafa tæknifrjóvganir verið framkvæmdar á Landspítalanum. Annars vegar hafa verið framkvæmdar tæknisæðingar, þannig að gjafasæði eða sæði eiginmanns eða sambýlismanns er komið fyrir í líkama konu. Hafa tæknisæðingar verið takmarkaðar við hjón eða karl og konu í sambúð. Hins vegar hafa verið framkvæmdar glasafrjóvganir, þar sem eggfruma konu er frjóvguð með sæðisfrumu annaðhvort eiginmanns eða sambýlismanns eða gjafasæði utan líkama og er frjóvgaðri eggfrumunni síðan komið fyrir í líkama konunnar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur staðfest reglur um glasafrjóvganir sem er ætlað að gilda þar til lög um tæknifrjóvganir hafa verið sett. Samkvæmt þeim er glasafrjóvgun aðeins heimil karli og konu sem hafa verið í hjúskap eða fastri sambúð í að minnsta kosti þrjú ár.
    Í frumvarpi til laga um tæknifrjóvgun sem var lagt fram á yfirstandandi þingi er gengið út frá því að tæknifrjóvgun verði samheiti yfir tæknisæðingu og glasafrjóvgun. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er það skilyrði sett fyrir þessum aðgerðum að konan sem undirgengst aðgerðina sé samvistum við karlmann, í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem staðið hafa samfellt í þrjú ár.

4. Skattareglur.
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 njóta samkynhneigðir einstaklingar í sambúð einskis skattalegs hagræðis og hafa ekki rétt til að vera skattlagðir sem hjón. Hjón eru skattlögð sem sama hætti og einstaklingar (einhleypingar) en með vissum frávikum að því er varðar álagningu, skattskyldar tekjur og eignir. Karl og kona sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða ef sambúðin hefur varað samfleytt í að minnsta kosti eitt ár, enda óski þau bæði skriflega eftir því við skattyfirvöld.
    Reglur um barnabætur og barnabótaauka í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt kveða á um að barnabætur skiptist til helminga milli hjóna og karls og konu í óvígðri sambúð, án tillits til þess hvort þau síðarnefndu óska samsköttunar. Barnabætur og barnabótaauki til samkynhneigðs foreldris í sambúð með öðrum samkynhneigðum einstaklingi miðast hins vegar við sömu greiðslur og til einstæðs foreldris.
    Reglur um vaxtabætur til samkynhneigðra í sambúð eru þær sömu og gilda um einhleypinga.

5. Ýmis réttindi.
     Almannatryggingar og félagsleg aðstoð.
    Reglur um almannatryggingar eru í lögum nr. 117/1993, en til almannatrygginga teljast lífeyristryggingar, slysatryggingar og sjúkratryggingar. Í lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, er kveðið á um mæðra- og feðralaun, barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára, umönnunarbætur, endurhæfingarlífeyri, heimilisuppbót, uppbætur vegna sérstakra aðstæðna, uppbót vegna reksturs bifreiðar og bifreiðarstyrki.
    Réttur til ýmiss konar félagslegrar aðstoðar hefur löngum verið bundin við hjúskaparstöðu. Tilhneiging hefur verið til að koma á jafnrétti milli hjóna og sambúðarfólks í óvígðri sambúð á þessu sviði en lagabreytingar í þá átt hafa ekki verið taldar ná til sambúðar samkynhneigðra. Þannig hefur samkynhneigður einstaklingur í sambúð ekki notið ýmissa bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð sem hjón og karl og kona í óvígðri sambúð njóta, svo sem slysabóta sem maki atvinnurekanda í landbúnaði, makalífeyris og makabóta, dánarbóta og ekkjulífeyris.
    Lífeyrisssjóðir.
    Samkvæmt 7. mgr. 14. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 29/1963, er stjórn sjóðsins heimilt að greiða makalífeyri eins og um ekkju eða ekkil væri að ræða ef sjóðfélagi lætur ekki eftir sig maka en einstæð móðir hans, systir eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans a.m.k. í fimm ár fyrir andlát hans. Er talið líklegt að sambúð samkynhneigðra falli hér undir að fullnægðu skilyrði um lágmarkstíma. Sambærileg regla er í 4. mgr. 12. gr. laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 95/1980. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda hins vegar aðeins rætt um slíkan lífeyrisrétt maka og eftirlifandi einstaklings í sambúð karls og konu.
    Ríkisborgararéttur.
    Samkvæmt 6. gr. laga um ríkisborgararétt, nr. 100/1952, má veita útlendingum íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Við veitingu ríkisborgararéttar hefur Alþingi stuðst við ákveðnar reglur, settar af allsherjarnefnd Alþingis, og eru núgildandi reglur frá 21. febrúar 1995. Samkvæmt þeim getur karl eða kona sem giftist íslenskum ríkisborgara fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu hér á landi frá giftingu, enda hafi sá síðarnefndi haft ríkisborgararéttinn ekki skemur en fimm ár. Búsetuskilyrði hefur á hinn bóginn verið fimm ár ef um ræðir óvígða sambúð karls og konu. Hefur ekki verið talið að þessar reglur nái yfir sambúð tveggja samkynhneigðra og gildir því hin almenna regla að útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skuli hafa átt lögheimili hér á landi í sjö ár en Norðurlandabúar í fjögur ár.

6. Eignaskipti við sambúðarslit eða andlát annars aðila í sambúð.
    Eins og nefnt var að framan í umfjöllun um eignarrétt og forræði eigna gildir sambærileg regla um tvo samkynhneigða einstaklinga í sambúð og karl og konu í óvígðri sambúð. Samkvæmt því eru eignir sem hvort þeirra um sig á og kaupir fyrir sína fjármuni þess eign. Engar ákveðnar efnisreglur um skipti við sambúðarslit er þannig að finna í lögum heldur er litið á sambúðarfók sem tvo sjálfstæða einstaklinga og um fjármál þeirra fer eftir almennum reglum fjármunaréttar. Við slit sambúðar birtist þessi regla þannig að eignaskipti byggjast á eignatilkalli hvors um sig og tekur því hvor aðili til sín það sem hann á. Hins vegar getur skapast vafi um eignarétt að vissum eignum, enda hafa einstaklingarnir í sameiginlegu heimilishaldi sínu báðir lagt til fjármuni til kaupa þeirra og eru báðir eigendur í samræmi við það. Oft getur reynst erfitt að sanna hlutdeild hvors um sig í eignamyndun á meðan fjárhagsleg samstaða hefur verið milli sambúðarfólks. Dómstólar hér á landi hafa reynt að ráða bót á misrétti í eignaskiptingu sem getur skapast við slit óvígðrar sambúðar karls og konu ef eingöngu er byggt á formlegum eignarheimildum með því að dæma sambúðaraðila hlutdeild í eignamyndun eða að sameign hafi stofnast. Má ætla að sambærileg sjónarmið geti átt við um sambúð tveggja samkynhneigðra, en ekki hefur reynt á þetta álitaefni fyrir íslenskum dómstólum.
    Ítarlegar efnisreglur er að finna í lögum um fjárskipti hjóna við slit hjúskapar. Þá gildir svokölluð helmingaskiptaregla um eignaskiptin sem felst í því að hjúskapareign að frádregnum skuldum hvors hjóna er skipt til helminga milli þeirra, enda séu eignir hvors um sig meiri en skuldir. Komi hjón sér ekki saman um skiptingu eigna við skilnað fara fram opinber skipti samkvæmt ákvæðum XIV. kafla hjúskaparlaga og XIV. kafla skiptalaga nr. 20/1991.
    Í 100. gr. skiptalaga er veitt heimild til þess að karl og kona í óvígðri sambúð geti krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra, með því skilyrði að þau hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman í skemmri tíma og annað hvort eignast saman barn eða konan er þunguð af völdum karlsins. Þessi heimild nær samkvæmt orðanna hljóðan hinsvegar ekki til sambúðar samkynhneigðra.
    Reglur sem lýst var að framan um skiptingu eigna milli aðila við slit sambúðar annars vegar og hjúskapar hins vegar eiga jöfnum höndum við þegar sambúð eða hjúskap lýkur við andlát annars. Þegar eignir hins látna hafa verið aðgreindar frá eignum þess eftirlifandi skiptast þær milli erfingja þess látna. Sá sem var í óvígðri sambúð með þeim látna og uppfyllir skilyrði áðurgreindrar 100. gr. skiptalaga getur krafist opinberra skipta á dánarbúinu með sama hætti og erfingjar, en eins og áður var nefnt nær sú heimild ekki til sambúðar samkynhneigðra.
    
7. Erfðaréttur.
    Mikill munur er á réttarstöðu sambúðarfólks annars vegar og hjóna hins vegar þegar kemur að reglum erfðalaga um lögerfðir. Enginn lögbundinn erfðaréttur ríkir á milli sambúðarfólks, án tillits til þess hvort um ræðir sambúð karls og konu eða sambúð samkynhneigðra. Þegar hjúskapur er annars vegar kemur fram í 4. tölul. 1. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, að eftirlifandi maki er lögerfingi þess látna. Eigi arfleifandi börn á lífi tekur maki þriðjung hluta eigna hans en tvo þriðju hluta eignanna erfa börnin að jöfnu. Eigi arfleiðandi enga niðja á lífi tekur maki hans allan arf. Að auki hefur eftirlifandi maki rétt til setu í óskiptu búi og víðtækan útlausnarrétt og forgangsrétt að munum við skiptin.
    Erfðaréttur milli sambúðarfólks getur einvörðungu verið byggður á erfðaskrá og láti hinn látni eftir sig skylduerfingja (maka og/eða niðja) getur hann einvörðungu ráðstafað þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá.
    Þegar kemur að reglum laga um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, er reynt að jafna hlut sambýlisfólks til jafns við hjón, þannig að enginn erfðafjárskattur er greiddur af arfi sem rennur til sambýlismanns samkvæmt erfðaskrá. Hins vegar er hugtakið sambýlismaður einskorðað við einstakling af gagnstæðu kyni, sbr. A-lið 2. gr. laganna. Því þarf eftirlifandi aðili í samkynhneigðri sambúð sem tekur arf eftir hinn látna samkvæmt erfðaskrá að þola það óhagræði að greiða erfðafjárskatt í hæsta skattflokki, sbr. C-lið 3. mgr. 4. gr. laganna, eða allt frá 30 til 45 af hundraði.

IV. Tillögur nefndar um málefni samkynhneigðra.
    Eins og lýst var að framan er frumvarp þetta byggt á tillögum meiri hluta nefndar um málefni samkynhneigðra frá október 1994 um hvernig megi veita samkynhneigðum í sambúð sambærilega réttarstöðu við hjón. Í tillögum sínum benti nefndin á að sett yrðu lög um réttarstöðu samkynhneigðra sem skyldu byggjast á sama grunni og löggjöfin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Löggjöf þessara landa um þetta málefni væri stutt, skýr og lagatæknilega einföld. Var það mat nefndarinnar að mikilvægt væri að hafa lagasamræmi á Norðurlöndum um réttarstöðu samkynhneigðra, eins og almennt hefur verið leitast við á vettvangi sifjaréttarins til þessa.
    Í ljósi framangreinds lagði nefndin til að þeir embættismenn sem önnuðust staðfestingu samvistar yrðu þeir sömu og framkvæma borgaralegar hjónavígslur, þ.e. sýslumenn og fulltrúar þeirra. Réttaráhrif staðfestrar samvistar skyldu verða sambærileg réttaráhrifum hjúskapar, þó með sambærilegum undantekningum og þeim er koma fram í norrænu löggjöfinni. Með hliðsjón af því yrði samkynhneigðum í staðfestri samvist hvorki heimilað að ættleiða börn né fara sameiginlega með forsjá barns annars þeirra. Taldi meiri hluti nefndarinnar að á meðan staðfest samvist væri að festa sig í sessi sem viðurkennt sambúðarform í þjóðfélaginu væri rétt að fara hægt í sakirnar í þessu efni. Var meðal annars tekið tillit til þess almenna sjónarmiðs að barni sé að jafnaði fyrir bestu að eiga sér bæði móður- og föðurímynd. Tekið var fram að réttur samkynhneigðra foreldra til að ala upp sín eigin börn hefði ávallt verið óskoraður og hefði löggjöf um staðfesta samvist engin áhrif þar á.
    Minni hluti nefndarinnar, með tveimur nefndarmönnum, vildi hins vegar ganga lengra en meiri hlutinn þannig að engar undantekningar skyldu gilda um stofnun og réttaráhrif staðfestrar samvistar frá þeim reglum sem gilda um hjúskap. Taldi minni hlutinn það mótsagnakennt að viðurkenna þau sjálfsögðu mannréttindi samkynhneigðra samvistarmaka að eiga þess kost að tryggja eigin velferð og fjárhagslegt öryggi með því að staðfesta samvist sína formlega en láta svo eins og börn þessara fjölskyldna eigi ekki sama rétt og önnur börn í samfélaginu eða að samkynhneigðir foreldrar eigi ekki sama rétt og aðrir foreldrar.

V. Hugtakið staðfest samvist.
    Hugtakið staðfest samvist er nýtt og hefur ekki áður verið notað um tiltekið sambúðarform hér á landi. Nefndin um málefni samkynhneigðra lagði til að þetta hugtak yrði notað um sambúðarform það sem ráðgert er í frumvarpinu. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er notað annað en þó sambærilegt hugtak yfir þetta sambúðarform, eða „registreret partnerskab“, sem hefur verið þýtt á íslensku sem „skráð sambúð“. Nefndinni þótti ýmislegt mæla gegn þeirri hugtakanotkun hér á landi og voru ástæður þess einkum tvíþættar. Í fyrsta lagi er hugtakið skráð sambúð þegar notað um þá aðstöðu þar sem karl og kona skrá óvígða sambúð sína hjá Hagstofu, sér til réttindaauka. Nefndin taldi nauðsynlegt að greint yrði á milli hugtaka yfir þess konar sambúð og sambúðarformsins sem frumvarpið ráðgerir. Í öðru lagi taldi nefndin að orðið „skráð“ hefði á sér óþarflega formlegt yfirbragð og vekti frekar upp hugrenningar um sérstaka skrá hjá yfirvöldum en hugmyndir um varanlegt samband tveggja eintaklinga.
    Nefndin leitaði tillagna íslenskrar málstöðvar um heppilegt orðfæri yfir sambúðarformið sem frumvarpið ráðgerir, sem væri þjált í munni og hentaði líka sem skilgreining í stjórnsýslu en byði ekki augljóslega upp á útúrsnúninga. Eftir viðræður við starfsmenn málstöðvarinnar og yfirvegun nefndarinnar náðist samstaða um að gera tillögu um orðfærið „staðfest samvist“. Með notkun þessa hugtaks koma af sjálfu sér önnur heiti sem þörf er fyrir og tengjast þessari aðstöðu, svo sem samvistarmaki eða eftir atvikum samvistarkona og samvistarmaður.

VI. Efnisskipan frumvarpsins.
    Efnisatriðum frumvarps þessa er skipað með eftirfarandi hætti. Fjallað er um skilyrði staðfestrar samvistar og könnun á að skilyrðin séu uppfyllt í 1.–3. gr. frumvarpsins. Reglur um framkvæmd á staðfestingu samvistar eru í 4. gr. frumvarpsins. Í 5. og 6. gr. er lýst réttaráhrifum staðfestrar samvistar meðan hún varir og undantekningum frá því að almennar reglur um hjúskap gildi um þá aðstöðu. Í 7. og 8. gr. er lýst lokum staðfestrar samvistar, reglum um fjárskipti og réttaráhrifum þess að staðfestri samvist ljúki. Loks er gildistökuákvæði í 9. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er orðuð sú regla að tveir einstaklingar af sama kyni geti stofnað til staðfestrar samvistar. Orðalag greinarinnar útilokar að tveir einstaklingar af gagnstæðu kyni geti verið í staðfestri samvist, enda beinist þetta úrræði að því að samkynhneigðir í sambúð geti notið þeirra réttinda sem kveðið er á um í frumvarpinu. Hins vegar er ekki gert að skilyrði að um samkynhneigða einstaklinga sé að ræða, en slíka reglu er til dæmis að finna í norsku lögunum um skráða sambúð. Þykir ekki nauðsynlegt eða viðeigandi að gera ákveðin skilyrði um kynhneigð þeirra sem vilja fá staðfestingu samvistar. Það er einnig í fullu samræmi við þá skipan að engin skilyrði eru sett í lögum um gagnkynhneigð karls og konu sem vilja ganga í hjúskap eða skrá óvígða sambúð sína.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skilyrði staðfestrar samvistar. Í 1. mgr. ákvæðisins er vísað til II. kafla hjúskaparlaga um skilyrði þess að samvist verði staðfest. Þannig gilda að öllu leyti ákvæði 7.–12. gr. hjúskaparlaganna, en þar eru sett skilyrði um 18 ára lágmarksaldur (7. gr.), að einstaklingur sé ekki lögræðissviptur (8. gr.), bann við ákveðnum skyldleika (9. gr.) og að ættleiðing sé ekki í gildi milli aðila (10. gr.), bann við tvíkvæni (11. gr.) og loks bann við því að stofnað verði til hjúskapar ef fjárskiptum úr fyrra hjónabandi er ekki lokið eða opinber skipti ekki hafin (12. gr.). Rétt er að benda á að 12. gr. hjúskaparlaga mundi eiga við jöfnum höndum ef fjárskiptum úr fyrri staðfestri samvist er ekki lokið, en eins og kemur nánar fram í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er staðfestingu samvistar ætlað að hafa sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar.
    Sérstakt skilyrði um ríkisborgararétt og lögheimili er sett í 2. mgr. Sambærileg skilyrði eru í norrænni löggjöf um skráða sambúð samkynhneigðra. Rök sem liggja hér að baki eru fyrst og fremst þau að á meðan þetta nýja sambúðarform er enn þá viðurkennt í lögum fárra ríkja utan Norðurlandanna, sé rétt að krefjast þess að aðilar hafi ákveðin tengsl við ríkið þar sem slík réttarstaða er veitt með lögum. Þannig yrði tveimur erlendum ríkisborgurum ekki mögulegt að fá samvist sína staðfesta hér á landi, enda hefði hún engin réttaráhrif í því landi sem þeir koma frá ef þetta sambúðarform er ekki viðurkennt þar með lögum. Til þess að skilyrði 2. mgr. verði uppfyllt er nægilegt að annar aðilinn hafi íslenskan ríkisborgararétt og lögheimili hér á landi. Hér er átt við lögheimili í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990, þ.e. stað þar sem maður hefur fasta búsetu.

Um 3. gr.


    Með sama hætti og kemur fram í 1. mgr. 13. gr. hjúskaparlaga er aðilum sem ætla að stofna til staðfestrar samvistar skylt að leggja fram vottorð um að öll hjónavígsluskilyrði skv. II. kafla hjúskaparlaga séu uppfyllt. Í 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er vísað til ákvæða III. kafla hjúskaparlaganna um könnun hjónavígsluskilyrðanna, þ.e. að hverju könnun lúti, hverjir annist hana og um útgáfu könnunarvottorðs.
    Í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um könnun skilyrða fyrir staðfestri samvist. Í 2. mgr. 13. gr. hjúskaparlaganna er sambærileg regla um að settar skuli nánari reglur um könnun á hjónavígsluskilyrðum. Eftir að nýju hjúskaparlögin tóku gildi, 1. júlí 1993, hefur ekki verið sett ný reglugerð á grundvelli þessa ákvæðis. Núgildandi reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða, nr. 155 frá 8. júní 1973, er sett í gildistíð eldri laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972. Er því ráðgert að ný reglugerð verði sett um könnun hjónavígsluskilyrða á grundvelli 2. mgr. 13. gr. hjúskaparlaga og 3. mgr. 3. gr. frumvarps þessa, nái það fram að ganga.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lögð til sú undantekning frá 16. gr. hjúskaparlaga, að einskorða heimild til þess að annast staðfestingu á samvist við borgaralega vígslumenn. Samkvæmt 18. gr. laganna eru borgaralegir vígslumenn sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra. Er þetta í samræmi við þá skipan sem á er höfð í norrænu lögunum. Þar sem heimildin takmarkast við borgaralega vígslumenn skv. 18. gr. hjúskaparlaganna gilda ekki heimildir 19. og 20. gr. laganna um vígslumenn sem þar er getið.
    Í ársbyrjun 1995 fór dóms- og kirkjumálaráðuneytið þess á leit við biskup Íslands, að hann gerði ráðuneytinu grein fyrir afstöðu íslensku þjóðkirkjunnar til álitaefnisins um að kirkjulegir vígslumenn önnuðust staðfestingu samvistar. Annars vegar var leitað eftir viðhorfum kirkjunnar til lagaheimildar um kirkjulegra vígslu fyrir samkynhneigða og hins vegar hvort prestar þjóðkirkjunnar ættu að vera skyldir að framkvæma slíka vígslu, jafnvel þótt það stríddi gegn sannfæringu þeirra. Var jafnframt lagt til að málið yrði borið undir kirkjuráð og kirkjuþing. Skömmu síðar skipaði biskup Íslands nefnd til þess að fjalla um þetta málefni og skyldi hún leggja niðurstöður sínar fyrir kirkjuþing haustið 1995. Tókst nefndinni ekki að ljúka þessu máli fyrir kirkjuþing en þess í stað hefur kirkjuráð lýst afstöðu þjóðkirkjunnar til þessa álitaefnis með svarbréfi biskups Íslands til ráðuneytisins dags. 21. nóvember 1995 þar sem segir um þetta atriði:
    „Kirkjan gerir sér vitanlega grein fyrir því að prestar hennar eru ekki aðeins í þjónustu trúarlegs aðila, heldur einnig opinberir starfsmenn, sem hljóta að lúta lögum ríkisins og fyrirmælum. Hins vegar óskar kirkjan alls ekki eftir því og telur það mjög vafasamt að mælt verði fyrir því í lögum að heimild sé veitt til kirkjulegrar vígslu samkynhneigðra.
    Hitt er vitanlega sjálfgefið, að prestar og aðrir kirkjulegir aðilar munu biðja fyrir þeim, sem leita eftir slíku og er þá aðeins spurt um þörf en ekki grennslast fyrir um stöðu viðkomandi.“
    Þess má geta að dóms- og kirkjumálaráðuneytið leitaði einnig eftir því hver væri afstaða kirkjunnar til sáttaumleitana presta milli einstaklinga í staðfestri samvist. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga eiga hjón sem hafa ákveðið að leita skilnaðar, þess ávallt kost að leitað sé um sættir með þeim og skv. 3. mgr. sama ákvæðis leita prestar eða löggiltir forstöðumenn trúfélaga um sættir. Ef annað eða bæði hjóna eru utan trúfélaga eða hvort í sínu trúfélaginu getur sýslumaður eða dómari, eftir því hvar mál er til meðferðar, leitað um sættir. Um þetta atriði sagði í áðurgreindu bréfi biskups Íslands um afstöðu þjóðkirkjunnar:
    „Prestar spyrja ekki hjón um það, hver hafi gift þau, áður en leitast er við að verða þeim að liði, þegar í óefni er komið. Eins munu prestar veita samkynhneigðu fólki í sambúð aðstoð sína eins og um sálusorgun væri að ræða. Óeðlilegt mundi það þó teljast, að sambúðarslit samkynhneigðra væru því aðeins leyfð, að kirkjan hefði gefið heimild til slíks vegna misheppnaðra sáttatilrauna.“
    Í ljósi þessarar afstöðu þjóðkirkjunnar eru ekki ráðgerðar undantekningar í frumvarpinu frá almennum reglum hjúskaparlaga um sáttaumleitanir fyrir presti.
    Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er vísað til ákvæða hjúskaparlaga um hæfi vígslumanns og um framkvæmd á staðfestingu samvistar. Er reglum 21.–26. gr. laganna þannig ætlað að gilda um framkvæmdina að því leyti sem þær eiga við um borgaralega hjónavígslu.

Um 5. gr.


    Í þessari grein birtist kjarni frumvarpsins. Undirstöðumarkmið þess er að staðfestri samvist fylgi sömu réttaráhrif og hjúskap, þ.e. að einstaklingar í staðfestri samvist njóti sömu réttinda og á þeim hvíli sömu skyldur og einstaklingum í hjúskap. Þannig er 5. gr. ætlað að taka af tvímæli um að þegar stofnað hefur verið til staðfestrar samvistar verði réttaráhrif hennar að öllu leyti þau sömu og réttaráhrif hjúskapar nema til komi undantekningarnar í 6. gr. frumvarpsins. Jafnframt öðlast einstaklingar í staðfestri samvist öll réttindi og skyldur hjóna sem birtast í almennri löggjöf að öðru leyti. Um þau atriði má vísa til umfjöllunar um lagalega stöðu samkynhneigðra í sambúð í III. kafla almennra athugasemda að framan. Þar má til dæmis nefna gagnkvæman lögerfðarétt sem stofnast milli einstaklinga í staðfestri samvist og að reglur erfðalaga sem bundnar eru við hjúskap munu gilda um staðfesta samvist, skattalega samstöðu sem stofnast samkvæmt skattalögum líkt og um hjón væri að ræða, svo og að reglur almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð sem gera hjúskap að skilyrði munu gilda um staðfesta samvist verði frumvarpið að lögum.
    Auk þess að geta almennt um réttaráhrif þess að stofnað er til staðfestrar samvistar er áréttað í 5. gr. að alls staðar í lögum þar sem rætt er um hjúskap, vísað er til maka eða eftir atvikum rætt um eiginkonu, eiginmann eða annað hjóna, þá eigi það jafnt við um einstakling í staðfestri samvist, án þess að sérstakra lagabreytinga sé þörf í þeim efnum.

Um 6. gr.


    Í frumvarpinu eru ráðgerðar nokkrar undantekningar frá þeirri meginreglu að réttaráhrif staðfestrar samvistar verði þær sömu og réttaráhrif hjúskapar. Þessar undantekningar eru taldar upp í 6. gr. frumvarpsins með tæmandi hætti. Þær taka einkum mið af og eru reistar á sömu rökum og sambærilegar undantekningar sem gerðar eru í norrænu lögunum um skráða sambúð.
    Í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta var lýst helstu sjónarmiðum meiri hluta nefndarinnar um málefni samkynhneigðra um rök fyrir þeim undantekningum sem birtast í 1. og 2. mgr. 6. gr og varða börn. Þar kom meðal annars fram að á meðan staðfest samvist væri að festast í formi sem viðurkennt sambúðarform í samfélaginu væri rétt að fara hægt í sakirnar í þessu efni. Með hliðsjón af hagsmunum barnsins og sjónarmiðum um að því sé að jafnaði fyrir bestu að eiga sér bæði móður- og föðurímynd þætti ekki rétt að stuðla að því með lögum að samkynhneigðir í staðfestri samvist öðluðust óskoraðan rétt til að ættleiða börn samkvæmt lögum um ættleiðingar og til tæknifrjóvgunar samkvæmt gildandi reglum um það efni.
    Hins vegar ber að líta til þess að sú aðstaða getur auðveldlega verið fyrir hendi að samkynhneigður einstaklingur fari með forsjá barns síns þegar hann stofnar til staðfestrar samvistar. Við þessar kringumstæður, þ.e. í sameiginlegu heimilishaldi einstaklinga í staðfestri samvist og barns annars þeirra, þykir eðlilegt og í samræmi við hagsmuni barnsins að regla 3. mgr. 30. gr. barnalaga um lögbunda forsjá stjúpforeldris gildi með sama hætti og um hjúskap sé að ræða. Þannig ráðgerir frumvarpið að tveir einstaklingar í staðfestri samvist geti farið sameiginlega með forsjá barns annars þeirra og hvílir því jöfn framfærsluskylda á þeim gagnvart barninu, sbr. 2. mgr. 9. gr. barnalaga auk annarra forsjárskyldna. Réttaráhrif sem bundin eru við stöðu stjúpforeldris gagnvart stjúpbarni í öðrum lögum mundu gilda með sama hætti í þessari aðstöðu. Falli foreldri barnsins í staðfestu samvistinni frá fer samvistarmaki áfram með forsjá þess en skv. 2. mgr. 31. gr. barnalaga má fela hinu foreldri barnsins forsjá þess að ósk foreldrisins, ef það er talið barninu fyrir bestu. Sameiginleg forsjá einstaklinga í staðfestri samvist fyrir barni annars þeirra hefur meðal annars þau áhrif að skylt verður að leita sátta milli þeirra fyrir skilnað sbr. 2. mgr. 42. gr. hjúskaparlaga, en eins og vikið var að í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins að framan er ráðgert að almennar reglur hjúskaparlaga gildi um sáttaumleitanir í tengslum við slit staðfestrar samvistar.
    Sú undantekning sem lögð er til í 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins byggist einkum á því sjónarmiði að ef ákvæði laga geyma sérreglur um maka á grundvelli kynferðis hans, þá gæti einstaklingum í staðfestri samvist verið mismunað eftir því hvort um ræðir tvær konur eða tvo karla í staðfestri samvist. Í reynd eru aðeins örfá lagaákvæði eftir í íslenskri löggjöf með sérreglur um maka sem grundvallast á kynferði hans. Hefur slíkum ákvæðum fækkað verulega á undanförnum áratugum á grundvelli almennra jafnréttissjónarmiða og voru þau endanlega afnumin úr hjúskaparlögum með núgildandi lögum. Úr almennri löggjöf má nefna sem dæmi um slíkt ákvæði, 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem veitir rétt til ekkjulífeyris, en samkvæmt orðanna hljóðan er ákvæðið afdráttarlaust bundið við réttindi eftirlifandi konu eftir lát maka síns.
    Í lokaákvæði 6. gr. er ráðgerð sú undantekning að réttaráhrif staðfestrar samvistar séu takmörkuð við íslensk lög og reglur en ákvæði í alþjóðlegum samningum þar sem rætt er um hjúskap gildi ekki um þessa aðstöðu nema með samþykki annarra samningsaðila. Þetta þykir eðlileg regla meðal annars í ljósi þess að ef samningsaðili viðurkennir ekki í löggjöf sinni sambúðarform sambærilegt við staðfesta samvist getur skapast flókin aðstaða ef þess verður krafist af honum á grundvelli alþjóðasamnings. Ekki koma margir alþjóðasamningar til álita sem varða hjúskap og réttaráhrif hans og Ísland er aðili að. Ákvæðið getur fyrst og fremst átt við um samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um hjúskap, ættleiðingu og lögráð frá 1931, sbr. lög nr. 29/1931. Þótt þrjú þessara landa, Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafi þegar sett lög um skráða sambúð yrði samþykki þeirra áskilið samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins ef beita á samningnum með gagnkvæmum hætti um staðfesta samvist. Þess má geta að 4. mgr. 6. gr. getur haft gildi varðandi alþjóðasamninga sem Ísland gerist aðili að síðar og varða hjúskap og réttaráhrif hans.
    Hins vegar ber að geta þess að almennar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar mundu gilda um viðurkenningu á staðfestri samvist sem stofnast hefur til annars staðar á Norðurlöndum eða ríkjum þar sem slíkt sambúðarform er viðurkennt. Þannig gætu tveir samkynhneigðir einstaklingar sem hafa staðfest samvist sína erlendis, með sömu réttaráhrifum og veitt eru slíku sambúðarformi hér á landi, skráð þá hjúskaparstöðu í þjóðskrá ef þeir flytjast hingað til lands. Slík tilkynning til þjóðskrár myndi þá sjálfkrafa veita þeim sömu réttarstöðu og einstaklingum í staðfestri samvist sem hefur stofnast til hér á landi.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er talið með hvaða hætti staðfestri samvist lýkur. Um lok staðfestrar samvistar gilda að öllu leyti sömu reglur og um lok hjúskapar og er fyrirmynd þessa ákvæðis að finna í 5. gr. hjúskaparlaga. Nánari reglur um ógildingu hjúskapar er að finna í V. kafla hjúskaparlaganna og um hjónaskilnaði er fjallað í VI. kafla laganna.

Um 8. gr.


    Vísað er til ákvæða hjúskaparlaga í 1. mgr. þessarar greinar um að ákvæði laganna um ógildingu hjúskapar, svo og um hjónaskilnaði og fjárskipti gildi jöfnum höndum um staðfesta samvist. Einnig er þar sú almenna regla höfð til áréttingar að öll ákvæði í almennri löggjöf sem varða lok hjúskapar eða réttaráhrif, svo og skyldur eða réttindi sem veitt eru langlífari maka í hjúskap, eigi við þegar staðfestri samvist lýkur, hvort heldur vegna ógildingar, skilnaðar eða andláts.
    Af framangreindri reglu leiðir að XV. kafli hjúskaparlaga um réttarfar í hjúskaparmálum og XVI. kafli laganna um meðferð og úrlausn stjórnvalda gilda um staðfesta samvist með þeim undantekningum sem taldar eru í 2. og 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins.     Undantekning 2. mgr. 8. gr. lýtur að því að dómstólar hér á landi hafi rýmri lögsögu en kveðið er á um í 1. mgr. 114. gr. hjúskaparlaga til þess að taka fyrir dómsmál skv. 113. gr. hjúskaparlaganna ef þau varða staðfesta samvist. Þannig er vikið frá búsetuskilyrði stefnda, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 114. gr., skilyrðum sem varða ríkisfang aðila, sbr. 3. og 4. tölul., svo og skilyrði um að leyfi hafi verið veitt eða dómur gengið hér á landi um skilnað að borði og sæng áður en lögskilnaðar er krafist fyrir dómi. Rökin að baki rýmri lögsögu dómstóla hér á landi í málum sem varða staðfesta samvist eru einkum þau að meðan þetta sambúðarform er viðurkennt í löggjöf tiltölulega fárra ríkja getur reynst ómögulegt að höfða mál í tengslum við þessa aðstöðu annars staðar en fyrir dómstólum hér á landi.
    Sambærileg rök liggja að baki ákvæðinu í 3. mgr. 8. gr. Þar er ráðgert að einstaklingar í staðfestri samvist geti fengið meðferð og úrlausn mála sem varða samvistina fyrir stjórnvöldum hér á landi, án tillits til þeirra skilyrða sem sett eru í 1. mgr. 123. gr., þar á meðal um búsetu og ríkisfang.

9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um
staðfesta samvist.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að tveir einstaklingar af sama kyni geti látið staðfesta samvist sína og öðlast þar með rétt og skyldur sem að mörgu leyti eru hliðstæðar hjónabandi.
    Skilyrði fyrir staðfestingu samvistar eru þau sömu og krafist er í hjúskaparlögum. Kostnaður sýslumannsembætta við framkvæmd á könnun slíkra skilyrða og staðfestingu á samvist er hverfandi.
    Með 5. gr. yrði það lögfest að staðfesting samvistar, með þeim undantekningum sem greinir í 6. gr., hafi sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Þetta þýðir að aðilar staðfestrar samvistar njóta sömu réttinda og taka á sig sömu skyldur og hjón, m.a. gagnvart lögum um tekjuskatt og eignarskatt, almannatryggingalögum, lögum um félagslega aðstoð og hugsanlega réttinda til lífeyris.
    Á þessu stigi er ekki vitað hve margir einstaklingar munu stofna til staðfestrar samvistar og því er ógerlegt að meta hvaða fjárhagsleg áhrif það hefur á tekjuhlið ríkissjóðs eða útgjaldahlið almannatrygginga, útgjöld vegna félagslegrar aðstoðar eða aðra útgjaldaþætti ríkissjóðs. Reynsla nágrannalandanna bendir til að staðfestar samvistir verði tiltölulega fáar og því munu fjárhagsleg áhrif þeirra á ríkissjóð verða hverfandi.